Um kistu og ker

Þorsteinn B. Jónmundason

Þorsteinn er menntaður í búfræði frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal og húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann vann við smíði á sérhönnuðum innréttingum og húsgögnum frá 1970-1984, en unnið við sölu, ráðgjöf og hönnun á innréttingum til einstaklinga og fyrirtækja í byggingariðnaði til ársins 2013. En árið 2014 hóf Kista og Ker starfsemi.

Árið 2012 var ég þátttakandi á Hönnunarmars, sjá nánar um sýninguna og sýndi þar duftker úr íslenskum við í Hallgrímskirkju og vakti sýningin töluverða athygli. Rúnar Geirmundsson, útfarastjóri sem á og rekur Útfaraþjónustuna ehf. mætti á sýninguna og saman ræddum við þann möguleika að smíða kistu í stíl við duftkerið. Í framhaldinu var smíðuð kista úr 21 mm þykkri furu. Kistan var með grófa yfirborðsáferð og mjög frábrugðin hefðbundnu formi á kistum. Síðar þetta sama ár smíðaði ég kistu úr íslensku lerki frá Hallormsstað. Kistan var í sama stíl og furukistan en með breyttu loki og festingar á loki voru úr við, ólíkt furukistunni. Kistuna var ég með til sýnis á Hönnunarmars 2013 og þá í samstarfi við Sigrúnu Láru Shanko textíllistakonu og Sigríði Ólafsdóttur vöruhönnuð, auk þeirra kom Rúnar Geirmundsson að þessu verkefni. Sýningin var haldin í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og var þverfagleg sýning hönnuða.

Kista í kistu
Árið 2014 smíðaði ég, í samstarfi við Rúnar Geirmundsson, kistu úr íslensku lerki. Kistan er hönnuð með þeim hætti að hægt er að nota hana endurtekið en minni og ódýrari kistur úr gegnheilli furu, er rennt inn í kistuna. Þessi aðferð, kista í kistu, hentar mjög vel þegar um bálför er að ræða. Nánari útfærslu á þessu má finna á heimasíðu útfararþjónustunnar, utfarir.is Auk þessa hef ég smíðað kistu úr íslenskri ösp og haft börkinn sýnilegan á lokinu. Öspin hentar mjög vel í kistusmíði.

Kistur í hefðbundnum stíl
Undanfarin tvö ár hef ég aðallega verið að framleiða kistur sem eru í nokkuð hefðbundnum stíl. Þær eru smíðaðar úr gegnheilum ljósum við og eru mjög vistvænar. Kisturnar eru ekki lakkaðar og viðurinn er látinn halda sér en ég tek við séróskum ef einhverjar eru varðandi liti, lökkun og einnig varðandi stærð og mál kistunnar.